Bandaríkin hafa lokað sendiráði sínu í Jemen vegna hótana frá hópi sem tengist al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum, sem er grunaður um að hafa reynt að sprengja farþegaþotu í loft upp í Bandaríkjunum.
Fram kemur í yfirlýsingu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu að ákveðið hafi verið að loka sendiráðinu í höfuðborginni Sanaa vegna fjölmargra hótana um að ráðist yrði á bandarísk skotmörk í Jemen.
Í gær heimsótti hershöfðinginn David Petraeus, yfirmaður Bandaríkjahers í Mið-Austurlöndum, Jemen þar sem hann lýsti yfir stuðningi Bandaríkjanna í baráttunni við al-Qaeda.
Hann sagði sl. föstudag að Bandaríkin myndu tvöfalda fjárhagsaðstoð til handa baráttunni gegn hryðjuverkahópum í Jemen.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sagði einnig í morgun að þeir Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefðu ákveðið að fjármagna þjálfun lögreglusérsveita í Jemen, sem eiga að berjast gegn öfgahópum.