Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, ætlar að kvænast þriðju eiginkonunni í dag. Hann mun hafa ætlað að ganga að eiga konuna á síðasta ári en kom því ekki við vegna stjórnmálaanna. Fréttir herma, að Zuma sé einnig að undirbúa að taka sér fjórðu eiginkonuna.
Zuma, sem er 67 ára, er af ættbálki Zulumanna og hefur í heiðri gamalgrónar hefðir um fjölkvæni. Þetta er umdeilt í Suður-Afríku og yngri kynslóðin telur m.a. að slíkt eigi ekki rétt á sér í nútímalegu samfélagi.
Zima kvæntist fyrstu konu sinni, Khumalo-Zuma, árið 1973 og annarri konunni, Nompumelelo Ntuli-Zuma, fyrir tveimur árum. Hann kvæntist einnig Nkosazana Dlamini-Zuma, sem nú gegnir embætti innanríkisráðherra í Suður-Afríku en þau skildu. Þá er ein af fyrri eiginkonum hans látin. Nú ætlar hann að kvænast Thobeku Mabhiju, 36 ára unnustu sinni.
Að sögn fréttavefjar BBC hefur nú einnig komið í ljós, að Zuma undirbýr að kvænast fjórðu konunni, Gloriu Bongi Ngema, sem færði Zuma fjölskyldunni hefðbundnar brúðkaupsgjafir í síðustu viku.
Þegar Zuma tók við forsetaembætti á síðasta ári voru talsverðar vangaveltur um hver yrði aðalkona hans. Zuma hefur hins vegar komið fram við opinber tækifæri með öllum konunum þremur, þar á meðal Mabhija.