Ætla að banna andlegt ofbeldi gegn maka

Ríkisstjórn Frakklands hefur boðað lagafrumvarp sem á að gera fólki kleift að kæra maka sinn fyrir andlegt ofbeldi. Talið er nánast öruggt að franska þingið samþykki frumvarpið og að það verði að lögum innan hálfs árs.

Kvenréttindahreyfingar hafa fagnað frumvarpinu en andstæðingar þess segja að mjög erfitt geti reynst að fylgja banninu eftir og sanna ásakanir um andlegt ofbeldi þegar orð stendur gegn orði. Jafnvel stuðningsmenn frumvarpsins hafa áhyggjur af því að erfitt verði að sanna glæpinn vegna þess að ofbeldismennirnir gæta þess í langflestum tilvikum að aðrir verði ekki vitni að ofbeldinu.

Franski sálfræðingurinn Marie-France Hirigoyen, sem hefur aðstoðað mörg fórnarlömb andlegs ofbeldis, kveðst styðja slík lög en segir að mikilvægt sé að tryggja að fólk misnoti þau ekki til að ná sér niðri á maka sínum.

Lögfræðingurinn Laurent Hincker, sem styður frumvarpið, segir að andlegt ofbeldi sé ekki eini glæpurinn sem erfitt sé að sanna og nefnir einelti og áreitni á vinnustöðum í því sambandi. „Fólk hélt því lengi fram að ekki væri hægt að setja lög gegn einelti vegna þess að erfitt væri að sanna það en núna hafa slík lög verið sett og fólk hefur verið dæmt á grundvelli þeirra.“

Andstæðingar frumvarpsins segja að yfirvöld eigi ekki að skipta sér af hjónabandserjum og telja að erfitt verði að skilgreina andlegt ofbeldi.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert