Barack Obama, Bandaríkjaforseti, mun hafa verið ómyrkur í máli á fundi með þjóðaröryggisráðgjöfum og fulltrúum leyniþjónustustofnana í Washington í gærkvöldi. Gagnrýndi hann leyniþjónustuna harðlega fyrir að koma ekki í veg fyrir að ungur Nígeríumaður reyndi að granda bandarískri farþegaflugvél á jóladag.
Eftir fundinn sagði Obama í sjónvarpsávarpi, að ljóst væri orðið, að upplýsingar hefðu ekki verið greindar eða tekið á þeim mark. Gaf hann til kynna, að „rauð flögg" sem birtust fyrir árásina á flugvélina hefðu verið alvarlegri en upphaflega var talið.
„Það er ekki viðunandi og ég mun ekki láta það viðgangast," sagði Obama.
Forsetinn mun hafa verið enn ómyrkari í máli á fundinum í Hvíta húsinu. Að sögn embættismanns krafðist Obama þess að gerðar yrðu endurbætur án þegar á öryggiskerfi heimavarnaráðuneytisins og að ekki yrði eytt tíma í að finna sökudólga.
„Þetta var klúður sem hefðu getað haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar," hafði embættismaðurinn eftir Obama. „Okkur tókst að beygja okkur undan kúlunni í þetta skipti. Það var að þakka hugrökkum einstaklingum en ekki því að kerfið virkaði."
Nýgeríumaðurinn Farouk Abdulmutallab, er sakaður um að hafa reynt að sprengja upp bandaríska farþegaflugvél skömmu áður en vélin lenti í Detroit. Maðurinn reyndi að sprengja sprengju sem saumuð hafði verið í nærbuxur hans. Sprengingin mistókst og farþegar yfirbuguðu manninn.