Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, segir lesendum norska blaðsins Aftenposten að efnahagshorfur á Íslandi séu almennt góðar, til langs tíma litið, þegar hann var spurður um efnahagshorfurnar 2020. Hann vonast til að Íslendingar verði þá gengnir í Evrópusambandið og farnir að gleyma Icesave.
Þórólfur svaraði fjölda fyrirspurna lesenda á netinu og eru spurningar og svör birt á netútgáfu Aftenposten.
Margar jákvæðar athugasemdir í garð Íslendinga komu fram í spurningum. Nokkrir stungu upp á nánara samstarfi landanna í gjaldeyrismálum eða að löndin tækju upp ríkjasamband, jafnvel að Ísland yrði gert að fylki í Noregi. Norðmenn gætu þá nýtt auð sinn til að hjálpa Íslendingum út úr vandræðunum vegna Icesave.
Þórólfur svaraði því til að þessar vangaveltur væru ekki raunhæfar. Íslendingar myndu varla samþykkja slíkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Spurður um stöðu ríkisstjórnarinnar ef lögin um ríkisábyrgð á Icesave yrði felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni sagði Þórólfur að þetta væri mikilvægt mál fyrir stjórnina og erfitt yrði fyrir hana að sitja áfram við þær aðstæður.