Gengið fellt misjafnlega mikið í Venezúela

Hugo Chavez, forseti Venezúela.
Hugo Chavez, forseti Venezúela. reuters

Hugo Chavez, forseti Venezúela, hefur tilkynnt, að gengi gjaldmiðils landsins, bólivarsins, verði fellt um að minnsta kosti 17%. Gengisfellingin verður margslungin því gagnvart varningi sem Chavez telur óþarfa nemur hún 50%.

Gagnvart innfluttum „forgangsvörum“ lækkar gengið úr 2,15 í 2,60 bólivar gagnvart dollar. Hins vegar verður að kaupa hvern dollar á 4,30 bólivara þegar um er að ræða innflutning á vörum sem ekki teljast til nauðsynja. Gagnvart þeim lækkar hann því um 50%.

Chavez hefur legið undir þrýstingi um að fella gengið til að auka tekjur ríkisins af olíuvinnslu. Glímir hann við 25% verðbólgu og þverrandi gjaldeyristekjur. Gengið var síðast fellt í Venezúela árið 2005.

Á óopinberum gjaldeyrismarkaði lækkaði gengið miklu meira í gær og þar verður að reiða fram sex bólivara fyrir hvern keyptan dollar.

Í lægra gengisþrepinu verða matvæli- og lyf auk innkaupa ríkisins. Bílar, rafeinda- og rafbúnaður og efnainnflutningur ýmiss konar er meðal þess sem fellur undir 50% gengisfellinguna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert