Forsvarsmenn dýragarðs á Skáni í Svíþjóð neyddust til að aflífa alla úlfana, sem voru í garðinum, 14 dýr alls. Varð þetta niðurstaðan eftir að nokkrir úlfanna, þar á meðal forustuúlfarnir, grófu sig út úr girðingunni þar sem þeim var haldið.
Tveimur úlfum tókst í gær að sleppa úr girðingunni og þeir voru skotnir á flótta. Annar þeirra var forustuúlfynjan. Ljóst þótti, að í kjölfarið yrði alger upplausn í úlfaflokknum í girðingunni og var því gripið til þess að skjóta öll dýrin.
„Þetta er afar sorglegt mál vegna þess að það er ekki auðvelt að byggja upp úlfaflokk. Það tekur mörg ár. En ég tel að við höfum gert rétt," hefur fréttastofan TT eftir Johan Lindström, forstjóra dýragarðsins.
Dýragarðurinn var rýmdur í gær þegar úlfarnir sluppu úr girðingunni. Um 80 dýrategundir eru í garðinum, allt norræn dýr, bæði tamin og villt.