Forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown lýsir pólitísku samsæri gegn sér sem heimskulegu og segist leita eftir innblæstri til Nelson Mandela, fyrrum forseta Suður-Afríku, fyrir komandi þingkosningar.
Þrátt fyrir að tilraun tveggja fyrrverandi ráðherra Verkamannaflokksins hafi runnið út í sandinn um að láta þingflokk Verkamannaflokksins kjósa í leynilegri kosningu um framtíð Brown sem leiðtoga flokksins þá er synd að segja að lognmolla ríki í kringum forsætisráðherrann. Í dag hvatti fyrrverandi framkvæmdastjóri Verkamannaflokksins, Peter Watt, Brown til þess að hætta sem leiðtogi flokksins.
En Brown ætlar ekki að gefast upp og í dag birtist viðtal við hann í vinsælasta slúðurblaði Bretlands, News of the World. Þar er haft eftir honum að hann ætli ekki að eyða tíma í að takast á við hluti sem að hans mati eru heimskulegir.
Hann segist vera staðráðin í því að sitja heilt kjörtímabil til viðbótar fari flokkurinn með sigur af hólmi í kosningunum sem þurfa að fara fram í vor.Brown upplýsti í viðtalinu að hann hefði fengið innblástur frá Mandela í jólafríinu er hann sá kvikmyndina Invictus sem meðal annars fjallar um Mandela og lok aðskilnaðarstefnunnar í S-Afríku.
„Kvikmyndin um Nelson Mandela fjallar um staðfestu og það er það sem ég snýst um," segir Brown í viðtalinu. Hann hefur einnig verið að lesa ljóð William Ernest Henley en titill myndarinnar er tekinn úr ljóði hans.
Hann segist vera í góðu sambandi við forvera sinn í starfi, Tony Blair, og segir að Blair sé einn besti forsætisráðherra sem Bretar hafi átt. „Við Tony ræðum oft saman," segir Brown og bætir við að hann fari að ráðleggingum Blair líkt og hann hafi alltaf gert.
Þess er vænst að Blair gefi skýrslu fyrir bresku nefndinni sem rannsakar Íraksstríðið og er óttast að vitnisburður hans geti skaðað Verkamannaflokkinn enn frekar fyrir væntanlegar kosningar.
Í grein sem birtist í Mail on Sunday í dag hvetur Watt Brown til þess að segja af sér í þágu flokksins. „Gordon stórmenni í stjórnmálum en skortir tilfinningalegt innsæi sem er nauðsynlegt fyrir leiðtoga nútímans."
Með blaðinu fylgir með úrdráttur úr endurminningum Watt en þar fær Brown heldur betur á baukinn. Segir hann að allt hafi gengið á afturfótunum síðan Brown flutti inn í Downing stræti.
En þrátt fyrir þetta þá virðist stuðningur við Verkamannaflokkinn hafa aukist lítillega að undanförnu ef marka má könnun sem birt er í Sunday Telegraph. Þar fær Íhaldsflokkurinn áfram 40% en Verkamannaflokkurinn 30% sem er 1% meira heldur en í síðustu könnun.
41% kjósenda telja að Verkamannaflokkurinn væri betur kominn án Brown en 35% sögðu flokkinn standa betur með Brown í forystu.
David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, sagði í þættinum BBC Sunday að Bretar þyrftu á kosningum að halda sem fyrst.