Segja frjálsa menn hafa reist píramídana

Verkamenn standa við hlið grafhýsins sem fannst við píramídana í …
Verkamenn standa við hlið grafhýsins sem fannst við píramídana í Egyptalandi. Reuters

Grafhýsi, sem hafa fundist skammt frá píramídunum í Egyptalandi, þykja hafa styrkt stoðirnar undir þeirri kenningu að frjálsir menn hafi reist þá, en ekki þrælar.

Þau eru sögð vera um 4.500 ára gömul. Ekki hafa fundist grafhýsi sem þessi síðan 1990.

„Þessi grafhýsi voru byggð samhliða píramída konungsins, sem bendir til þess að þessir einstaklingar hafi alls ekki verið þrælar,“ segir Zahi Hawass, yfirfornleifafræðingur Egyptalands.

„Hefðu þetta verið þrælar þá hefðu þeir ekki getað reist grafhýsi sín við hliðina á konunginum.“

Á vettvangi hafa fundist fornleifar sem benda til þess að verkamennirnir 10.000, sem reistu píramídana, hafi borðað 21 nautgrip og 23 kindur, sem bændur hafi sent þeim daglega.

Hawass segir að þetta bendi til þess að bændurnir hafi ekki greitt skatta til egypskra stjórnvalda, heldur að þeir hafi tekið þátt í egypsku þjóðarátaki. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Verkamennirnir unnu þrjá mánuði í einu. Grafhýsin, sem eru frá árunum 2649-2374 fyrir krist, voru fyrir þá sem létust á meðan framkvæmdirnar stóðu yfir. 

Egypsk stjórnvöld hafa lengi reynt að útrýma því sem þeir hafa kallað „goðsögn“ um þrælana sem byggðu píramídana. Þeir segja allt slíkt tal grafa undan þeirri kunnáttu, sem verkamennirnir þurftu að búa yfir við framkvæmdirnar, og hinu þróaða samfélagi forn Egypta.

Zahi Hawass, yfirfornleifafræðingur Egyptalands.
Zahi Hawass, yfirfornleifafræðingur Egyptalands. Reuters
Bein hafa fundist í grafhýsunum.
Bein hafa fundist í grafhýsunum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka