Líbanski herinn skaut úr loftvarnarbyssum á fjórar ísraelskar herflugvélar í dag. Að sögn líbanska hersins flugu vélarnar lágt inni í lofthelgi í suðurhluta Líbanons.
Fréttaskýrandi AFP-fréttastofunnar í Líbanon segir að um 70 skotum hafi verið skotið á flugvélarnar.
Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í landinu segir að ísraelsku vélarnar hafi brotið gegn ályktun öryggisráðs SÞ númer 1701, sem hafi bundið enda á stríðið milli Ísraelsmanna og Hizbollah-skæruliðanna í Líbanon árið 2006.
Undanfarna viku hafi flugferðum ísraelska herþotna fjölgað mikið innan lofthelgi Líbanons.
Talsmaður SÞ segir að nú sem fyrr hafi aðgerðum Ísraela verið mótmælt og öryggisráðinu tilkynnt um atburðinn.
Yfirvöld í Ísrael segja að þessi eftirlitsflug séu nauðsynleg, þrátt fyrir ályktun 1701. Ísraelar segja að með þessu geti þeir fylgst með vopnasmygli Hizbollah, sem þeir segja að sé gríðarlega mikið. Skæruliðarnir séu með þessu einnig að brjóta gegn ályktun öryggisráðsins.