Miklar tafir eru enn á umferð í Evrópu vegna snjókomunnar. Meðal annars lokuðust margir af þjóðvegum Portúgals í nótt vegna mikillar snjókomu og þurfti fjöldi fólks að eyða nóttinni í bílum sínum þar. Hið sama gildir um Þýskaland, Spán og Frakkland.
Um fimmtíu þjóðvegum var lokað í Norður- og miðhluta Portúgals í nótt vegna fannfergis. Skólum var einnig víða lokað.
Í norðausturhluta Þýskalands sátu 160 bílstjórar fastir í bílum sínum í nótt en þeim hefur nú verið bjargað. Umferð milli Þýskalands og Frakklands gengur mjög hægt vegna fannfergis og flugvellir eru þéttsetnir af farþegum sem ekki hafa komist á áfangastaði um helgina vegna veðursins.