Íbúar áströlsku borgarinnar Melbourne áttu margir hverjir erfitt með svefn undangengna nótt en hiti mældist hæstur 34 gráður. Til að bæta gráu ofan á svart voru þúsundir heimila án rafmagns þar sem tækjabúnaður rafmagnsfyrirtækja bilaði í hitanum. Um var að ræða heitustu nótt frá árinu 1902.
Veðurfræðingar sögðu fyrr í þessum mánuði að undanfarin áratugur hafi verið sá heitasti í Ástralíu frá upphafi mælinga. Og svo virðist sem hitinn ætli að gera Áströlum áfram lífið leitt. Svo illa fór hitinn í íbúa Melbourne að fjöldi þeirra fór í næturferð á ströndina til að kæla sig niður.
„Þetta var líkast til óþægilegasta nótt sem ég hef upplifað hér á landi,“ sagði Bretinn Andrew Jefferson í samtali við AFP fréttastofuna. Jefferson flutti til Melbourne frá Bretlandi fyrir níu árum.
Mikil röskun varð á samgöngum í borginni í kjölfar næturinnar heitu en hundruð lestaferðir voru felldar niður.