Innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak í mars árið 2003 var ólögmæt samkvæmt alþjóðalögum. Þetta eru niðurstöður sjálfstæðrar hollenskrar rannsóknarnefndar, sem hefur rannsakað stuðning hollenskra stjórnvalda við innrásina.
Willibrord David, formaður nefndarinnar, sagði á blaðamannafundi í Haag í morgun að lagalegur rökstuðningur fyrir innrásinni hafi verið ófullnægjandi. Hollendingar studdu innrásina, en sendu ekki herafla til landsins.
Nefndin segir að samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna varðandi Írak hafi ekki jafngilt umboði til aðgerða í Írak árið 2003.
Rannsókninni var hleypt af stokkunum eftir að minnisblöðum frá hollenska utanríkisráðuneytinu var lekið í fjölmiðla, en þar er lýst efasemdum um lögmæti innrásarinnar.
Niðurstöður skýrslunnar þykja vandræðalegar fyrir hollensk stjórnvöld og gætu styrkt stoðirnar undir það að alþjóðlegt dómsmál verði höfðað vegna Íraksstríðsins.