Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í kvöld ljóst, að manntjónið í jarðskjálftanum á Haíti í gær sé eitt það mesta, sem orðið hafi í náttúruhamförum á síðari árum. Líkti hún hamförunum við flóðbylgjuna, sem reið yfir lönd við Indlandshaf 2004 en þá létu yfir 220 þúsund manns lífið.
„Flóðbylgjan í Indlandshafi var hræðilegur harmleikur þar sem manntjón var gríðarlegt. Manntjónið er einnig gríðarlegt nú," sagði Clinton. Forsætisráðherra Haíti sagði í kvöld að líklega hefðu yfir 100 þúsund manns látið lífið og þingmaður sagðist óttast að allt að hálf milljón hefði farist.
Clinton hefur verið á ferð um Asíu en tilkynnti í kvöld að hún hefði stytt ferð sína og væri á leið til Bandaríkjanna til að skipuleggja viðbrögð við jarðskjálftanum. Bill Clinton, maður hennar, sem er sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna á Haíti, tilkynnti í kvöld að hann hefði stofnað sjóð sem ætlað væri að aðstoða íbúa þar.