Forseti Haíti á lífi

Forsetahöllin hrundi í skjálftanum.
Forsetahöllin hrundi í skjálftanum. Reuters

Alþjóðlegir sendimenn í Haíti segja að forseti landsins, Rene Préval, hafi lifað af jarðskjálftann sem lagði stóran hluta af höfuðborginni Port-au-Prince í rúst. Forsetahöllin er stórskemmd eftir skjálftann. Nú er nánast algert myrkur í höfuðborginni og mikil örvænting ríkir þar.

Óttast er að þúsundir manna hafi látið lífið í jarðskjálftanum. Þannig er um 200 manns saknað eftir að vinsælt ferðamannahótel í höfuðborginni, Hotel Montana, hrundi að hluta. Að sögn franskra sendimanna voru um 300 manns í hótelinu og er ljóst að um100 þeirra að minnsta kosti komust lífs af.

Mörg ríki eru að senda björgunarmenn til Haíti, þar á meðal Ísland, Bretland, Bandaríkin og  Frakkland. Sérfræðingar segja, að skjót viðbrögð skipti mestu máli því eftir nokkra sólarhringa minnki líkur hratt á að hægt sé að bjarga fólki á lífi úr húsarústum.

Haíti er   fátækasta ríkið í Ameríku og þar hafa náttúruhamfarir, fellibyljir, flóð og jarðskjálftar, verið tíðar undanfarin ár. 70% íbúanna lifir á undir 2 dölum á dag, jafnvirði um 250 króna, og helmingur íbúanna, sem eru 8,5 milljónir, er atvinnulaus. 

Fjöldi eftirskjálfta

Fyrsti jarðskjálftinn, sem mældist 7 stig, varð klukkan 21:53 í gærkvöldi að íslenskum tíma og átti upptök sín um 15 kílómetra suðvestur af Port-au-Prince. Að minnsta kosti 27 eftirskjálftar  mælst í kjölfarið, þar af einn 5,9 stig og annar 5,3 stig.  Óttast er að fleiri byggingar muni hrynja af völdum eftirskjálftanna.

Sameinuðu þjóðirnar í New York sendu í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að höfuðstöðvar SÞ í Port-au-Prince hefði skemmst mikið sem og aðrar byggingar samtakanna þar. Ekki væri vitað um afdrif margra starfsmanna SÞ, þar á meðal yfirmanns þeirra á Haíti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert