Óttast er að gífurlegt manntjón hafi orðið í hinum öfluga jarðskjálfta sem reið yfir Haítí í gær. Byggingar hrundu og grófst fólk undir rústum þeirra. Fjöldi starfsmanna Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á eyjunni er saknað en stöðvar SÞ hrundu að hluta.
Jarðskjálftinn átti upptök skammt undan landi í grennd við mjög þéttbýlt svæði og því áhrif hans meiri í byggð. Hann mældist 7,0 stig á richterskvarða. Höfuðborgin Port-au-Prince varð mjög illa úti.
Sömuleiðis hrundi sjúkrahús í borginni. Skjálftinn reið yfir klukkan 16:53 að staðartíma, klukkan 21:53 að íslenskum tíma í gærkvöldi.
Svo harður skjálfti hefur ekki riðið yfir landið í tvær aldir. Í kjölfarið sigldu svo tveir mjög harðir eftirskjálftar.
Sendiherra Haítí í Bandaríkjunum sagði að „gríðarlegar náttúruhamfarir“ hefðu orðið í landinu. Talið er að mörg hundruð manns í það minnsta hafi farist. Það eykur á vandann, að fjarskiptasamband við Haítí rofnaði fljótlega eftir skjálftann.
Lýst var yfir hættu á flóðbylgju á Haítí, Kúbu og Bahamaeyjunum, en úr henni varð þó ekki.
Bandaríkjamenn hétu í gærkvöldi bæði aðstoð hers og borgaralegra hjálpar- og björgunarsveita og sagði Hillary Clinton utanríkisráðherra að strax hefði verið hafist handa við að senda lið til landsins.