Benedikt páfi XVI hitti í dag konu, sem réðist á hann í jólamessu í Péturskirkjunni í Róm á aðfangadagskvöld. Sagðist páfi fyrirgefa konunni og spurðist fyrir um heilsu hennar, en konan hefur átt við geðræn vandamál að stríða.
Páfi hitti Susönnu Maiolo, 25 ára gamla ítalsk-svissneska konu, á einkafundi í Páfagarði ásamt fjölskyldu hennar í dag. Maiolo bað páfa afsökunar og páfi sagðist vilja sýna fram á að hann fyrirgæfi konunni, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá Páfagarði.
Maiolo komst yfir öryggisgirðingu í kirkjunni við upphaf messunnar og felldi páfa í gólfið. Hann sakaði ekki. Maiolo reyndi einnig að ná til Benedikts í miðnæturmessu í Péturskirkjunni í fyrra en en tókst ekki. Hún hefur að undanförnu dvalið á sjúkrahúsi skammt frá Róm.
Jóhannes Páll páfi II hitti árið 1983 og fyrirgaf Mehmed Ali Agca, sem reyndi að skjóta hann til bana á Péturstorginu árið 1981. Agca afplánaði þá 19 ára dóm fyrir tilræðið. Á mánudag verður Agca, sem er 52, látinn laus úr fangelsi en hann afplánaði einnig 10 ára dóm fyrir að verða tyrkneskum blaðamanni að bana árið 1979.
Agca hefur sagt að hann muni eftir að hann verður látinn laus svara spurningum um árásina á páfa. Hann hefur á undanförnum árum veitt ýmsar og misvísandi skýringar á því hverjir stóðu í raun á bak við banatilræðið.