Senda matvæli til Haítí

Sjónvarpsmynd frá Reuters-fréttastofunni sýnir mann, sem liggur fastur í húsarústum, …
Sjónvarpsmynd frá Reuters-fréttastofunni sýnir mann, sem liggur fastur í húsarústum, kalla á hjálp. Reuters

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) ætlar að senda mat til íbúa Haítí með tveimur flugvélum, en önnur þeirra mun fljúga frá El Salavador og hin frá Panama. Þetta segir talsmaður WFP í Suður-Ameríku, Alejandro Lopez-Chicheri.

Hann bendir á að það sé nauðsynlegt að koma matvælum á hamfarasvæði sem fyrst. Fyrstu tveir eða þrír dagarnir geti skipt sköpum. Þá sé einnig mikilvægt að koma lyfjum, vatni og björgunarsveitum á vettvang, en fjölmargir liggja fastir í húsarústum.

Lopez-Chicheri segir að WFP sé með um 200 starfsmenn á Haítí, sem vinni nú að því að skipuleggja matvælaflutninginn.

Mjög harður jarðskjálfti reið yfir Haítí í gær sem olli gríðarlegu tjóni í landinu, sem er eitt það fátækasta í heimi. Skjálftinn mældist vera um 7 á Richter. Óttast er að mörg hundruð hafi týnt lífinu. 

Gríðarleg eyðilegging varð í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí.
Gríðarleg eyðilegging varð í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert