Pólsk yfirvöld hafa ákært Svía fyrir að hafa átt þátt í því að stela hinu alræmda „Arbeit Macht Frei“ skilti, sem hékk yfir aðalinngangi Auschwitz útrýmingarbúða nasista í Póllandi. Svíinn hefur viðurkennt að hafa átt þátt í því að skipuleggja þjófnaðinn.
Saksóknarar í Póllandi hafa einnig farið fram á það við dómstóla að maðurinn, sem fjölmiðlar segja að sé sænski nýnasistinn Anders Högström, verði úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Högström, sem er 34 ára gamall, hefur sagt að hann hafi verið milligöngumaður í málinu. Hann segir að sér hafi verið gert að sækja skiltið og selja það. Hann endaði hins vegar á því að leysa frá skjóðunni og greindi frá því hverjir stóðu á bak við þjófnaðinn.
Hann sagði í samtali við sænska Aftonbladet að kaupandi hefði verið reiðubúinn að greiða nokkrar milljónir króna fyrir skiltið alræmda.
Hann sagðist jafnframt hafa átt þátt í því að lögreglan hafði hendur í hári þeirra sem stóðu á bak við þjófnaðinn, en skiltinu var stolið 18. desember sl.
Lögreglan fann skiltið, sem er fimm metra langt, 20. desember í Norður-Póllandi. Fimm pólskir menn voru handteknir. Búið var búta skiltið niður í þrjá hluta.