Bandríski sjónvarpsprédikarinn Pat Robertson sagði í gærkvöldi, að Haíti-búar hefðu gert samning við djöfulinn og ættu því sjálfir sök á jarðskjálftanum, sem lagði höfuðborg landsins í rúst á þriðjudagskvöld.
„Eitthvað gerðist fyrir löngu á Haíti og fólk kann að vilja þegja um það," sagði Robertson í sjónvarpsþætti sínum 700 Club í gærkvöldi. Að sögn sjónvarpsstöðvarinnar CNN sagði Robertson að Haíti-búar hefðu verið „undir hæl Frakka, þið vitið, Napóleons III eða svoleiðis. Og þeir komu saman og gerðu samning við djöfulinn. Þeir sögðu: Við munum þjóna þér ef þú frelsar okkur frá Frökkum. Sönn saga. Og djöfullinn sagði: OK, það er samþykkt."
Haítí-búar sigruðu franska nýlenduherra árið 1804 og lýstu yfir sjálfstæði.
„Þið vitið að Haíti-búar gerðu uppreisn og fengu frelsi. En alla tíð síðan hafa þeir þurft að þola bölvun af ýmsu tagi," sagði Robertson sem verður áttræður á þessu ári.
Hann hefur áður tengt náttúruhamfarir og hryðjuverkaárásir við fóstureyðingar í Bandaríkjunum. Skömmu eftir að fellibylurinn Katrína fór yfir Mexíkóflóa haustið 2005 með þeim afleiðingum að 1800 manns létu lífið í New Orleans, sagði Robertson í sjónvarpsþætti sínum:
„Við höfum myrt yfir 40 milljónir ófæddra barna í Bandaríkjunum... Ég las í gær mjög áhugaverða bók um það sem Guð segir í gamla testamentinu um þá sem úthella saklausu blóði. Og (höfundurinn) sagði að landið muni æla þeim út sem það gera... Og við höfum komist að raun um að við getum ekki varið okkur gegn árásum, hvort heldur er frá hryðjuverkamönnum eða náttúrunni. Gæti verið samband þarna á milli?"