Frumvarp um lögleyfingu og skattlagningu maríjúana í Kaliforníuríki var samþykkt almannaöryggisnefnd ríkisins í gærmorgun, þrátt fyrir viðvaranir lögreglu og saksóknara. Frumvarpið á eftir að fara fyrir heilbrigðisnefnd en stuðningsmenn þess óttast að afgreiðsla þess frestist þannig að taka leggja þurfi frumvarpið fyrir að nýju.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstaklingum 21 árs og eldri verði heimil varsla og neysla maríjúana. Þá verði lagður fimmtíu dollara skattur á hverja selda únsu af maríjúana, eða sem nemur um sex þúsund krónum á hver 28 grömm, auk söluskatts.
Maríjúana er nú þegar leyft í lækningaskyni í ríkinu og hefur margoft verið bent á hversu auðvelt aðgengið er að efninu. Telja ýmsir að það besta í stöðunni sé því að skattleggja neysluna, nær gjaldþrota Kaliforníuríki til hagsbóta.
Skiptar skoðanir eru á málinu. Stuðningsmenn frumvarpsins benda á að fíkniefnasalar biðji ekki um skilríki og því sé hægt að ná betri stjórn á sölunni. Einnig verði hluti teknanna notaður til forvarna.
Andstæðingar lögleyfingar segja hins vegar að ókostirnir vegi mun þyngra en kostirnir, s.s. í fjölgun fíkla og áhrifa þess á ótal fjölskyldur. Þeir spyrja einnig hvar eigi að draga mörkin og hvort næst verði amfetamín og kókaín lögleyfð. Lögregluyfirvöld telja jafnframt að lögleyfing muni hafa í för með sér aukna glæpatíðni.
Talið er að skattlagningin og ræktunargjald skapi Kaliforníuríki 1,3 milljarð dollara í tekjur.