Geymslustaður kjarnorkuúrgangs ótraustur

Starfsmenn þýsku geislavarnastofnunarinnar telja að fjarlægja þurfi sem allra fyrst 126 tunnur af kjarnorkuúrgangi úr saltnámu, en tunnurnar hafa verið geymdar þar síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Telja þeir geymslustaðinn ekki traustan og óttast leka úr tunnunum.

„Þetta er skásta lausnin vegna þess kjarnorkuúrgangs sem geymdur er þarna,“ er haft eftir Wolfram Koenig, yfirmanni Geislavarna ríkisins í Þýskalandi, sem mælti með lausninni.

Saltnáman sem um ræðir er staðsett í miðju landinu og í hana var fluttur kjarnaúrgangur á árunum 1967-78 og hann geymdur á um 500-1.000 metra dýpi neðanjarðar. Vitað hefur verið um nokkurn tíma að náman lekur auk þess sem talin er hætta á því að hún hrynji.

Ekki eru til nákvæmar skráð yfir hvað náman geymir, en í ágúst á síðasta ári kom í ljós að í námunni eru m.a. 28 kg af eitruðu plútoni.

Í fyrsta var tunnum raðað skilmerkilega í námunni, en á áttunda áratugnum tóku  menn upp á því að demba tunnum niður í námuna og þekja þær með grófu salti. Afleiðing þessa er að margar tunnurnar eru beyglaðar og nú byrjaðar að tærast.

Sökum þessa er talið að það verði sérlega erfitt verkefni, hættulegt og kostnaðarsamt að fjarlægja tunnurnar. Sumir telja að það kunni að taka áratug og kosta 4 milljarða evra.

Að sögn Koenig verður verkefnið bæði vísindaleg og tæknileg áskorun. Segir hann forsvarsmenn Geislavarna ríkisins senn ætla að kynna áætlun um hvernig best verði að málum staðið. 

Hjá stofnuninni hugleiða menn nú að koma úrganginum fyrir á allt að 1.000 metra dýpi neðanjarðar á svæði nærri námunni eða að fylla námuna með vatni og innsigla hana, en öruggasta leiðin er samt talin sú að fjarlægja tunnurnar.

„Þar sem langtímaöryggið og öryggi komandi kynslóða er aðalatriðið og vegna þess að það verður aðeins tryggt með því að fjarlægja tunnurnar þá sjáum við það sem bestu lausnina,“ kemur fram í tilkynningu frá Geislavörnum ríkisins.

Engar upplýsingar hafa enn fengist um það hvað yfirvöld hyggjast gera við úrganginn þegar hann hefur verið fjarlægður úr námunni. Sumir telja að ætlunin sé að koma úrganginum fyrir í gamalli járnnámu nærri Salzgitter, sem yrði þá fyrsta framtíðar geymslustaður kjarnorkuúrgangs í Þýskalandi.

Rekstur kjarnorkuvera hefur verið afar umdeildur í Þýskalandi. Andstæðingar kjarnorkuvera hafa gagnrýnt þýsk stjórnvöld fyrir skammsýni í tengslum við vandræðin sem nú eru komin upp í fyrrnefndri saltnámu og hvetja til þess að kjarnorkuverum landsins verði lokað.

Árið 2000 ákváðu þýsk stjórnvöld að leggja smám saman þeim 17 kjarnaofnum sem í landinu eru fyrir árið 2020, en ríkisstjórn Angela Merkel Þýskalandskanslara hefur haft áhuga á því að framlengja líftíma nokkurra ofnanna. Kjarnaofnar landsins framleiða um 30% allrar orku í Þýskalandi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert