Kínversk stjórnvöld stöðva fegurðarsamkeppni samkynhneigðra

Reuters

Kínverska lögreglan stöðvaði í dag fyrstu fegurðarkeppni samkynhneigðra nokkrum mínútum áður en hún átti að hefjast. Að sögn skipuleggjenda keppninnar átti hún að boða breytta tíma þar sem samkynhneigð væri sýnilegri.

„Þessi uppákoma hefur verið stöðvuð,“ segir Wei Xiaogang, sem átti að vera einn af dómurunum í keppninni Herra Hommi Kína. „Ég er sannfærður um að hafi verið vegna þess að þetta tengdist samkynhneigð.“

Þátttakendur í keppninni, sem fram átti að fara á veitingahúsi í Beijing, ætluðu að keppa um hver fengi að vera fulltrúi Kína á alheimskeppninni Herra Hommi sem halda á í Noregi í næsta mánuði. Ráðgert var að keppendur kæmu m.a. fram á nærbuxum einum fata.

„Lögreglan sagði að við hefðum ekki tilskilin leyfi,“ segir Ryan Dutcher, einn skipuleggjenda, og tók fram að menn væru enn að reyna að ná samkomulagi við lögregluna um að fá að halda keppnina. „Ég er vonsvikinn, en ég get ekki sagt að ég sé hissa. Þeir komu hér rétt áður en keppnin átti að byrja. Við höfðum ekki fengið neina viðvörun.“

Þátttakendur og áhorfendur litu á keppnina sem tákn um meira umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum körlum og konum í Kína, en samkynhneigð hefur löngum verið forboðin þar í landi.

Allt til ársins 1997 var samkynhneigð skilgreind sem glæpur í Kína og opinberlega var litið á samkynhneigð sem geðsjúkdómur fram til ársins 2001. Frá þeim tíma hafa hins vegar verið haldnar sífellt fleiri uppákomur á vegum homma og lesbía í landinu.

„Þetta er hræðilegt. Ég er afar vonsvikinn. Ég hélt að umburðarlyndi stjórnvalda væri að aukast,“ segir Jiang Bo, keppandi frá héraðinu Sichuan í suðvestur Kína. „Stjórnvöld voru að taka stórt skref fram á við. Og heimurinn allur hélt að kínversk stjórnvöld væru á réttri leið. En ég er sannfærður um að margir verði vonsviknir í ljósi atburða dagsins.“

Þrátt fyrir að margir samkynhneigðir telja að staða þeirra í landinu hafi batnað á allra síðustu árum, sérstaklega í stærstu borgum landsins, segja þeir enn mjög erfitt að koma út úr skápnum, sérstaklega gagnvart vinum og ættingjum. 

Sérfræðingar í Kína telja að um 30 milljónir landsmanna séu samkynhneigðir, þar af séu um 66% karlmenn. Í júní sem leið var fyrsta gleðiganga samkynhneigðra haldin í borginni Shanghai í Kína. Reyndar var gangan nokkuð hófstillt og lítið fór fyrir henni. Þar lentu þátttakendur líka því að stjórnvöld ákváðu að ákveðin atriði skyldu slegin af á síðustu stundu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert