Tvær skyttur á gæsaveiðum ollu uppnámi í kjarnorkuveri í Amarillo í Texas þegar öryggiskerfi versins fór í gang vegna nærveru skyttnanna. Yfirmenn versins tóku umsvifalaust þá ákvörðun að slökkva á vinnslu kjarnorkuversins í varúðarskyni þegar þeim bárust fréttir af því að sést hefði til dularfullra manna í felulitum með byssur á lofti á lóð versins. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.
Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að mennirnir tveir voru starfsmenn kjarnorkuversins og höfðu þeir ákveðið að eyða frídegi sínum úr vinnunni til þess að fara á gæsaveiðar. Fundust þeir í lundi skammt frá verinu þar sem þeir voru að fylgjast með fuglunum og biðu færis.
„Mennirnir voru bara að gera það sem fólk hér um slóðir gera,“ er haft eftir Tam Terry, sýslumanni fylkisins. „Þeir fengu hins vegar miklu stærra fylgdarlið en þeir reiknuðu með.“
Ekki er reiknað með því að mennirnir verði ákærðir fyrir uppátækið, enda höfðu þeir báðir fengið leyfi frá jarðareigandanum til þess að fara á gæsaskytterí á lóð hans.