Austurríki og Lúxemborg treg til að minnka bankaleynd

Josef Pröll, fjármálaráðherra Austurríkis.
Josef Pröll, fjármálaráðherra Austurríkis. THOMAS PETER

Fulltrúar þýskumælandi ríkja í Evrópu ætla að funda á næstunni um bankaleynd og kröfur Evrópusambandsins um sjálfkrafa skipti á upplýsingum. Þetta sagði fjármálaráðherra Austurríkis, Josef Pröll, í dag.

Hann hitti hinn þýska starfsbróður sinn, Wolfgang Schäuble, í Berlín í gær. Að hans sögn var þar ákveðið að fulltrúar Þýskalands, Austurríkis, Liechtenstein, Lúxemborgar og Sviss myndu hittast á næstu vikum til þess að ræða um bankaleynd og ESB.

Einnig munu fjármálaráðherrar allra ESB-ríkjanna hittast í Brussel á þriðjudaginn til þess að ræða bankaleynd, en sá fundur er samkvæmt heimildum AFP í austurríska stjórnkerfinu ekki sagður líklegur til að skila neinni niðurstöðu.

Þjóðverjar styðja sjálfrafa skipti á upplýsingum um bankaviðskipti, eins og flestar aðrar aðildarþjóðir ESB, en ef slíkt verður gert að reglu í sambandinu gæti það leitt til þess að bankaleynd verði að hluta til aflétt í Austurríki og Lúxemborg, sem bæði leggjast gegn breytingum á bankaleyndinni að sinni.

Að þeirra mati er aðeins skynsamlegt að aflétta bankaleyndinni að einhverju marki hjá þeim, ef öll önnur Evrópuríki, sem ekki eru aðilar að ESB, sérstaklega Sviss og Liechtenstein, samþykkja slíkar breytingar líka.

Fulltrúar Austurríkis benda líka á Bretland og eyjarnar á Ermasundi, Jersey og Guernsey, sem leyfi nafnlausar millifærslur á peningum, líkt og sum ríki í Bandaríkjunum, ekki síst Delaware. Pröll sagði í dag að þegar hann hitti Schäuble í gær hafi hann sýnt sjónarmiðum Austurríkismanna um bankaleynd skilning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert