Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér mynd, sem á að sýna Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, eins og hann kann að líta út nú, 52 ára að aldri. Um er að ræða 10 ára gamla mynd, sem breytt hefur verið með tölvutækni til að sýna hugsanlegar breytingar á andliti bin Ladens.
Bin Laden er efstur á lista yfir þá sem bandarísk stjórnvöld vilja helst koma höndum yfir. Hann er sakaður um að standa á bak við fjölda ódæða, þar á meðal sprengjuárásir á tvö bandarísk sendiráð í Afríku árið 1998 og árásirnar á New York og Washington 2001.
Ekki er vitað hvar bin Laden heldur sig en hann er talinn vera í fjöllunum á landamærunum milli Pakistans og Afganistans.