Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) notaði mynd af spænskum stjórnmálamanni sem grunn að tölvumynd af því hvernig Osama Bin Laden gæti litið út í dag. Þetta vekur ekki mikla kátínu hjá stjórnmálamanninum.
Spænski þingmaðurinn Gaspar Llamazares segist vera hneykslaður á því að mynd af sér hefði verið notuð í þessum tilgangi. Hann segist efast um að hann treysti sér til að ferðast til Bandaríkjanna eftir að hár hans og hluti af andlitinu hafi verið verið notað til að búa til mynd af Bin Laden.
Spænska dagblaðið El Mundo segir að talsmaður FBI hafi viðurkennt að stofnunin hafi tekið mynd af Llamazares af netinu og notað hana þegar myndin af Bin Laden var búin til.
Llamazares er 52 ára gamall og fyrrum leiðtogi bandalags vinstri manna á spænska þinginu. Hann sagðist í fyrstu ekki hafa trúað því að mynd af honum hefði verið notuð með þessum hætti, en síðan séð að það fór ekki á milli mála að myndin hefði verið notuð.