Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna á Haítí sagði í dag, að allt að 200 þúsund manns kunni að hafa látið lífið af völdum jarðskjálftans þar í síðustu viku. Björgunarmönnum tókst um helgina að bjarga mörgum á lífi úr húsarústum en þegar hafa um 70 þúsund manns verið greftruð, flestir í fjöldagröfum.
Ken Keen, yfirhershöfðingi, sagði að náttúruhamfarirnar væru gríðarlegar og enn væri ekki hægt að segja með vissu hve margir hefðu látið lífið.
Björgunarstörf og dreifing hjálpargagna hafa gengið hægt um helgina og margir Haítíbúar reyna nú að fara frá höfuðborginni Port-au-Prince. Fréttir berast af uppþotum, ránum, gripdeildum og ofbeldisverkum.
Búist er við um 2000 bandarískum landgönguliðum á svæðið í dag til að aðstoða við að halda uppi lögum og reglu.