Afpanta bóluefni fyrir svínaflensu

Reuters

Grísk stjórnvöl hafa afpantað þriðjunginn af því bóluefni gegn svínaflensunni sem þau höfðu pantað. Jafnframt fara þau fram á endurgreiðslu frá lyfjafyrirtækjum vegna fyrirfram greiðslna vegna pöntunar bóluefnisins.

Á sama tíma hafa norsk stjórnvöld samið við breska lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline (GSK) um að minnka sinn lyfjaskammt um 30%.

„Við munum aðeins greiða fyrir það bóluefni sem við höfum þegar fengið,“ lét heilbrigðisráðherra Grikklands hafa eftir sér á blaðamannafundi og bætti við: „Grikkland krefst þess að fá endurgreitt það bóluefni sem greitt hefur verið fyrirfram.“

Ríkisstjórn Grikklands hefur þannig afpantað 12,3 milljónir skammta af bóluefni, en upphaflega voru pantaðir 16 milljónir skammta til handa þeim 11 milljónum manna sem búa í Grikklandi. Enn sem komið er hafa aðeins borist til landsins 3,6 milljónir skammtar og aðeins 360 þúsund Grikkir hafa verið bólusettir.

Heilbrigðisráðherra Noregs hefur tilkynnt um samkomulag norskra stjórnvalda við GlaxoSmithKline sem er á svipuðum nótum og fyrirtækið hefur samið um við þýsk og belgísk stjórnvöld. Í því felst að norsk stjórnvöld geti sparað sér alls um 24,6 milljónir evra.

Norsk stjórnvöld pöntuðu á síðasta ári 9,4 milljónir skammta af bóluefni frá GSK og reiknuðu þá með því að gefa þyrfti landsmönnum, sem alls eru 4,8 milljónir, tvo skammta af bóluefninu til þess að verja þá gegn flensunni. Síðar kom í ljós að einn skammtur var talinn nóg.

Norðmenn hafa þegar fengið um 4,3 milljónir skammta afhenta og hafa 60% landsmanna verið bólusettir.

Alls hafa 97 manns látið lífið í Grikklandi vegna svínaflensunnar og 29 manns í Noregi.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert