Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom í kvöld til Haítí, en Clinton er sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum Haítí og hefur einnig tekið að sér ásamt George W. Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta, að skipuleggja fjársöfnun fyrir landið.
Clinton sagðist áður en hann lagði af stað, að hann myndi ræða við René Préval, forseta Haítí og reyna að tryggja samræmingu björgunaraðgerða og hjálparstarfs. Fram kemur í yfirlýsingu frá stofnun Clintons, að hann muni útvega ýmsar vistir svo sem vatn, matvæli, sjúkragögn, talstöðvar og rafstöðvar.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og eiginkona Bills, var á Haítí um helgina. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var þar einnig í gær og dag.
Alþjóðlegar björgunarsveitir voru enn í morgun að bjarga fólki úr rústum bygginga í Port-au-Prince en afar litlar líkur eru á að enn finnist fólk á lífi. Að sögn alþjóðlegra fréttastofa er nú búið að bjarga um 71 úr rústum húsa frá því jarðskjálftinn reið yfir á þriðjudag. Íslenska björgunarsveitin hefur bjargað þremur konum.
Alls eru 43 alþjóðlegar björgunarsveitir að störfum á Haítí. Í þessum sveitum eru alls 1739 félagar með 161 hund. Um 1000 bandarískir hermenn eru að störfum í Port-au-Prince og um 4000 hermenn eru í bandarískum herskipum við Haítí. Von var á 7500 hermönnum til viðbótar í kvöld.
Þrír Bandaríkjamenn slösuðust skammt frá flugvellinum í Port-au-Prince í dag. Fréttir af slysinu hafa verið óljósar en um tíma var talið að 30 manns hefðu slasast.