Björgun Dana „lítið kraftaverk"

Jens Tranum Kristensen eftir björgunina í gær.
Jens Tranum Kristensen eftir björgunina í gær. mynd/SÞ

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að björgun Danans Jens Tranum Kristensens úr rústum höfuðstöðva SÞ í Port-au-Prince á Haítí í gær ganga kraftaverki næst. Kristensen var bjargað fimm sólarhringum eftir að jarðskjálftinn reið yfir Haítí. 

Kristensen hefur starfað á vegum Sameinuðu þjóðanna á Haítí og hann var í byggingu SÞ sem hrundi þegar jarðskjálftinn reið yfir. Að sögn AFP fréttastofunnar var Kristensen þrekaður eftir þolraunina en ómeiddur að mestu.

Faðir Kristensens sagði við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 að hann hefði fengið tölvupóst frá syni sínum, sem liggur nú á argentínsku sjúkrahúsi. Hann sagðist vera aumur í hryggnum og með nokkra marbletti en ómeiddur að öðru leyti. 

Um 330 starfsmanna SÞ á Haítí er saknað eftir jarðskjálftann. Um 40 hafa fundist látnir í rústum höfuðstöðva samtakanna.

Í nótt tókst einnig að bjarga þremur manneskjum úr verslunarmiðstöðinni þar sem íslenska rústabjörgunarsveitin bjargaði þremur konum á fimmtudag. Fólkinu tókst að senda SMS til Sameinuðu þjóðanna á laugardag þar sem fram kom, að það væri í grænmetisdeild matvöruverslunar. Í kjölfarið hófst leit og tókst að finna fólkið í nótt. Það hafði lifað á matvöru úr versluninni. 

Rússneskir björgunarmenn bjarga fólki úr húsarústum á Haítí.
Rússneskir björgunarmenn bjarga fólki úr húsarústum á Haítí. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert