Breskum skipum sem taka þátt í átaki umhverfisstofnunarinnar KIMO heldur áfram að fjölga, en átakið felst í því að fá áhafnir fiskiskipa til hirða sorp úr sjó meðfram veiðunum.
Sextán skip taka þátt í átakinu
Fyrstu skipin til að taka þátt í átakinu voru Leven Mor og Kelly Emm sem bæði fiska vestur af Skotlandi. Fiskiskipin fá sérstaka sorppoka sem áhafnarmeðlimir geta víða skilið eftir á hafnarbökkum. Sextán skip taka nú að staðaldri þátt í hreinsunarátakinu.
Argyll and Bute í Skotlandi er fyrsta bæjarfélagið til að setja upp sérstaka móttöku fyrir sorppokana á hafnarbökkum. Len Scoullar, bæjarfulltrúi Argyll and Bute, segir í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að um gríðarlega mikilvægt átak sé að ræða.
Hefur umtalsverð áhrif á lífríki sjávar
„Þrátt fyrir ýmsar áætlanir og lög til að draga úr sorpi í sjó, heldur sjávarsorp áfram að vera eitt helsta umhverfisvandamál veraldar sem ógnar sjávarlífríkjum víða um heim,“ segir Scoullar.
Í frétt BBC segir að nýjar rannsóknir sýni að um 20 þúsund tonnum af rusli sé árlega sturtað í Norðursjó. Schoullar segir sterk rök benda til að aukið sjávarsorp hafi umtalsverð áhrif á lífríki sjávar.