Hollenski þingmaðurinn Geert Wilders kom fyrir dóm í dag en hann er ákærður fyrir kynþáttahatur gagnvart múslimum. Hann ítrekaði kröfu sína um að hann eigi rétt á því að tala um „íslamsvæðingu". Wilders, sem er þingmaður öfga-hægriflokksins Frelsisflokksins, er ekki óvanur því að þurfa að svara til saka fyrir ummæli sín. Þekkt er þegar hann líkti Kóraninum við Mein Kampf, rit Adolfs Hitlers.
„Ég veit að stundum er ég harkalegur í orðum," sagði Wilders fyrir héraðsdómi í Amsterdam í dag. „Ég hef ekkert á móti múslimum. En ég á í vandræðum með íslam og íslamsvæðingu lands okkar."
Wilders gerði mynd árið 2008 og nefnist hún Fitna og var Kóraninn þar sagður vera stefnuskrá ofbeldis. Sýnd voru myndskeið er tengdust árásunum á Tvíburaturnana í New York en á milli voru lesnar tilvitnanir í Kóraninn. Árið áður hafði Wilders hvatt til að bókin yrði bönnuð eins og rit Hitlers.
Wilders sagði í dag að frelsið væri í hættu í Hollandi. Fólki sé bannað að tjá skoðanir sínar og hvatti til þess að hann yrði sýknaður.
Hann er einnig ákærður fyrir að hafa lagt til að landamærum Hollands yrði lokað fyrir öllum innflytjendum sem væru ekki af vestrænum uppruna. Jafnframt að hafa staðhæft að ungmenni frá Marokkó væru ofbeldishneigð.
Wilders, sem á yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi verði hann fundinn sekur, var ákaft fagnað af um 200 fylgismönnum sínum sem stóðu fyrir utan réttarsalinn. Einhverjir komu frá Belgíu og Þýskalandi til þess að styðja hann.