Obama heldur sínu striki

Barack Obama
Barack Obama LARRY DOWNING

Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst halda sínu striki þegar kemur að heilbrigðisumbótunum þrátt fyrir tap Demókrataflokksins í  Massachusetts. Þetta er haft eftir Hvíta húsinu á vef breska ríkisútvarpsins.

David Axelrod, einn aðstoðarmanna forsetans, segir að forsetinn þurfi að endurhugsa herkænsku sína en ljóst megi vera að ekki verði hvikað frá stefnunni.

Scott Brown, sem vann sæti Massachusetts í öldungadeild Bandaríkjaþings, lét hafa eftir sér að sigur hans mætti að stórum hluta þakka það að hann hefði talað máli stórs hluta kjósenda sem væri óánægður með stöðu mála. Brown verður fyrsti öldungadeildarþingmaður Repúblíkana í Massachusetts síðan 1972.

Að sögn Axelrod munu Demókratar taka mark á tapinu, en engu að síður halda áfram að sækja það fast að koma stefnumálum sínum í gegn. Spurður um afdrif heilbrigðisumbótanna segir Axelrod það ekki í spilunum að gefa málið upp á bátinn þar sem vandamálið muni bara verða verra verði ekkert að gert.

Fyrirfram bjuggust fæstir við því að Demókratar myndu missa öldungadeildarþingsætið sitt í Massachusetts, en Edward heitinn Kennedy var fulltrúi fylkisins í tæpa fjóra áratugi. Stjórnmálaskýrendur segja ósigur Demókrata í fylkinu vera vondan afmælisglaðning, en í dag er ár síðan Obama tók formlega við forsetaembættinu.

Brown sagði í samtali við blaðamenn að sigur hans hafi sent skýr skilaboð til stjórnvalda um að „almenningur væri orðinn þreyttur á því hvernig á málum væri haldið í Washington.“ Hann hét því að taka til starfa hið fyrsta. „Nú er kosningabaráttan að baki og við þurfum að einblína á hvernig við leysum vandamálin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka