Stærsta brugghúsi heims, Anheuser-Busch InBev, hefur ekki tekist að semja við starfsmenn sína í Belgíu sem hafa lokað inngangi tveggja verksmiðja fyrirtækisins í þrettán daga og þeirrar þriðju í viku. Með þessu vilja starfsmennirnir mótmæla því að fyrirtækið ætlar að segja upp 263 starfsmönnum af 2.700 í Belgíu.
Fyrirtækið hefur fengið dómsúrskurð um að mótmæli við verksmiðjuna í Leuven verði brotin á bak aftur en hingað til hefur fyrirtækið ekki nýtt sér það.
InBev er með 57% markaðshlutdeild á belgískum bjórmarkaði en nú er svo komið að vegna hrávöruskorts verður ekki hægt að framleiða bjór mikið lengur í verksmiðjunum.