Björgunarmenn hafa fundið þrjú börn á lífi í húsarústum á Haítí í síðustu dögum en nú eru rúmir átta sólarhringar liðnir frá því mikill jarðskjálfti reið þar yfir. Um var að ræða 23 daga gamla stúlku, fimm ára gamlan dreng og 11 ára gamla stúlku. Íslenska björgunarsveitin er nú á leið heim frá Haítí.
Nýfædda barninu var bjargað úr rústum húss í Jacmel á suðurhluta Haítí á þriðjudag en það hafði þá legið þar í sjö sólarhringa.
Eldri stúlkunni var bjargað úr rústum húss fjölskyldu hennar í Port-au-Prince. Voru það nágrannar stúlkunnar sem björguðu henni. „Þetta er sannarlega kraftaverk," hafði frönsk fréttastofa eftir lækni á heilsugæslustöð sem franskar hjálparstofnanir reka. Bætti læknirinn við, að stúlkan hefði vaknað hægt en örugglega til lífsins eftir björgunina.
Móðir stúlkunnar, sem starfar við hreingerningar í sendiráði Frakklands í Port-au-Prince, sagðist hafa misst eitt af fimm börnum sínum í jarðskjálftanum.
Þá herma fregnir, að 25 ára gömul kona hafi í gær fundist á lífi í rústum verslunar. Þá var 70 ára gamalli konu bjargað úr rústum kaþólskrar kirkju í höfuðborginni. Konan söng sálma þegar hún var borin á brott.
Harður eftirskjálfti, 6,1 stig á Richter, reið yfir Haítí í gærmorgun. Ekki er vitað til þess að manntjón hafi orðið af völdum skjálftans en nokkrar byggingar, sem voru illa farnar eftir upphaflega skjálftans, hrundu til grunna, þar á meðal dómkirkja landsins í Port-au-Prince.