Hagkerfi Kína bólgnar út

Fjármálahverfi Shanghai í Kína er glæsilegt á að líta.
Fjármálahverfi Shanghai í Kína er glæsilegt á að líta. REUTERS

Hagvöxtur í Kína var 8,7% árið 2009 og verðbólga fór á flug undir lok ársins, samkvæmt tölum sem kínversk stjórnvöld gáfu út í morgun. Sérfræðingar segja að nú séu merki um ofþenslu í Kínverska hagkerfinu, eftir samdrátt allt árið 2008 og í byrjun árs 2009.

Á síðasta árfjórðungi ársins 2009 var hagvöxtur þessu þriðja stærsta hagkerfi heims 10,7%, og er nú talið líklegt að kínverska hagkerfið verði innan skamms orðið stærra en hið japanska.

Stjórnvöld í Kína hafa sett sér markmið um 8% hagvöxt á ári, sem er talinn nauðsynlegur til að fjölga störfum og koma í veg fyrir óróa í hinum sífellt stækkandi borgum alþýðulýðveldisins.

Viðsnúningur í hagkerfinu

Eins og víðar um heim var ástandið í Kínverska hagkerfinu ekki gott á árinu 2008, og voru til að mynda gríðarlegar uppsagnir í verksmiðjum um landið allt. Stjórnvöld brugðust við með miklum fjárútlátum til að reyna að hressa hagkerfið við, sem hefur nú að vissu leyti skilað árangri.

Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vara þó við því að hætta sé á ofþenslu í hagkerfinu, en verðbólgan í desember var sú mesta í 13 mánuði og nam 1,9%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert