Obama sækir að bönkunum

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hyggst takmarka mjög áhættusækni fyrirtækja í fjármálastarfsemi. Aðgerðir forsetans eru sagðar beinast gegn stærstu bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum Bandaríkjanna.

Obama, sem er enn í sárum eftir tap demókrata í öldungaráði Bandaríkjanna, tilkynnti um ákvörðun sína með Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna, og Paul Volker, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sér við hlið. 

„Þrátt fyrir að fjármálakerfið sé öflugra í dag en það var fyrir einu ári, þá starfar það enn samkvæmt sömu reglum sem leiddu til þess að það hrundi nær algjörlega,“ sagði Obama.

Hann leggur til að stærð banka verði takmörkuð. Þá leggur hann til að bönkum verði meinað að stunda viðskipti með eigið fé á fjármálamörkuðum sér til hagsbóta.

„Bankar munu ekki lengur fá að eiga, fjárfesta eða styrkja vogunarsjóði, fjárfestingarsjóði, eða stunda eigin viðskipti til að hagnast, þ.e. sem tengist ekki hagsmunum viðskiptavina sinna,“ sagði Obama.

Forsetinn hefur þegar kynnt áætlun sem miðar að því að skattleggja 50 stærstu banka Bandaríkjanna sem nemur 117 milljörðum dala næstu 10 árin. Tilgangurinn er að endurgreiða skattborgurum það fé sem fór í björgunaraðgerðirnar árið 2008. 

Þessi tillaga, sem og aðrar, þurfa samþykki þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert