Bresk stjórnvöld hafa hækkað viðbúnaðarstig vegna mögulegrar hryðjuverkaógnar, eða úr „talsvert“ yfir í „alvarlegt“. Alan Johnson, innanríkisráðherra Bretlands, segir að þetta þýði að það sé mjög líklegt að hryðjuverkamenn geri árás.
Hann segir að upplýsingamiðstöð sem fylgist með og greini hryðjuverkaógn í landinu (Joint Terrorism Analysis Centre) hafi ákveðið að hækka viðbúnaðarstigið. Um næst efsta stig er að ræða.
Johnson tekur hins vegar fram að yfirvöld hafa engar upplýsingar um að árás sé yfirvofandi. Hættan í landinu hefur verið metin talsverð frá því í júlí sl., sem er þriðja stig af fimm mögulegum.
Þetta eru viðbrögð við hótunum alþjóðlegra hryðjuverkahópa, en hótununum hefur farið fjölgandi í kjölfar tilraunar Nígeríumanns til að sprengja farþegavél í loft upp yfir Detroit í Bandaríkjunum á jóladag.
„Við stöndum enn frammi fyrir raunverulegri og alvarlegri ógn hér í Bretlandi sem stafar frá alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. Ég hvet almenning til að hafa augun opin og halda áfram að gefa viðeigandi yfirvöldum upplýsingar um grunsamlega hegðun, og styðja lögregluna og öryggisveitir í viðleitni sinni að leita uppi og koma í veg fyrir hryðjuverkastarfsemi,“ segir Johnson.