Nefnd á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytisins leggur til að 47 föngum, sem eru í haldi í Guantanamo-fangabúðum Bandaríkjahers á Kúbu, verði aldrei sleppt og að ekki verði réttað í máli þeirra.
Talið er að þetta sé í fyrsta sinn sem embættismenn nefna tölu yfir fjölda þeirra fanga sem verður mögulega haldið á bak við lás og slá án ákæru. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins greinir frá þessu.
Lagt er til að almennir dómstólar eða hernefnd rétti í máli 35 fanga.
Fréttir af þessu berast á sama tíma og frestur sem Barack Obama Bandaríkjaforseti gaf sér til að loka búðunum rann út.
Nefndin leggur segir jafnframt að hægt verði að leysa um 110 fanga úr haldi, annað hvort nú eða síðar. Þetta er haft eftir ónefndum embættismanni.
Fangarnir 47 sem nefndin vill ekki leysa úr haldi eru sagðir vera mjög hættulegir. Ekki sé hægt að rétta í máli þeirra vegna ónógra sönnunargagna, eða vegna þess að þeir veittu mikilvægar upplýsingar í kjölfar þvingana. Slík sönnunargögn séu ekki tæk í réttarhöldum.