Evrópusambandið hefur helgað árið 2010 baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun. Hér á landi verður um 25 milljónum króna varið til margvíslegra verkefna til að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun. Auglýst verður eftir verkefnum í byrjun febrúar.
„Stöðvum fátæktina strax“ er kjörorð átaksins sem José Manuel Barroso, forseti Evrópuráðsins og spænski forsætisráðherrann José Luis Zapatero ýttu formlega úr vör á ráðstefnu um málið sem haldin var í Madríd á Spáni.
Talið er að um 17% Evrópubúa, þ.e. um 84 milljónir manna, búi við kjör sem eru undir fátæktarmörkum. Í frétt á vef félagsmálaráðuneytisins kemur fram að í ávarpi sínu hafi Barroso sagt að baráttan gegn fátækt og félagslegri einangrun væri mikilvægur hluti af því að komast út úr efnahagskreppunni og benti á að oftast væru það hinir varnarlausu í samfélaginu sem yrðu harðast úti í slíku ástandi.
Alls taka 29 þjóðir þátt í verkefninu, þ.e. aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands og Noregs. Evrópusambandið leggur um 17 milljónir evra til átaksins og verður þeim varið til verkefna sem taka til allrar álfunnar, auk átaksverkefna sem einstakar þjóðir efna til í samræmi við helstu forgangsverkefni sín á þessu sviði.