Bresk kona hefur verið dæmd í rúmlega þriggja ára fangelsi fyrir að gera syni sínum upp veikindi og þar með láta hann þola viðvarandi kvalir. Þannig hlaut hún mikla athygli og samúð auk gjafa, m.a. peninga.
Sagt hefur verið um Lisu Hayden-Johnson að hún hafi notið athyglinnar sem sonur hennar fékk. Hayden-Johnson fékk fjárframlög og utanlandsferðir frá góðgerðarsamtökum og fundaði með kóngafólki, stórstjörnum og fyrrverandi forsætisráðherra Tony Blair.
Hún sagði son sinn m.a. haldinn heilalömun, slímseigjusjúkdómi og kyngingarörðugleikum. Fyrir hennar atbeina fékk hann sérstök verðlaun fyrir hugrekki (e. Child of Courage Award) árið 2005.
Saksóknari sagði að Hayden-Johnson hefði skipulega séð til þess að sonur hennar fengi læknismeðferðir, alls yfir 300 talsins, sem hann þurfti ekki og ollu honum kvölum allan sólarhringinn. Hún lýsti syni sínum iðulega sem veikasta barni Bretlands.
Ótal blóðprufur voru teknar og nokkrar aðgerðir framkvæmdar. Hann mataðist gegnum slöngu og var bundinn við hjólastól. Heima hjá Hayden-Johnson var m.a. spítalarúm, sérstakur útbúnaður til að gefa drengnum að borða, súrefnisgríma og ýmis lækningartól.
Saksóknarinn sagði að drengurinn sjálfur trúði því að hann væri alvarlega veikur og ætti eftir að koma í ljós hvaða áhrif þessi slæma meðferð móður hans myndi hafa á hann.