Lifði á Coca-Cola

Franskir slökkviliðsmenn bjarga Wismond Exantus í gærkvöldi.
Franskir slökkviliðsmenn bjarga Wismond Exantus í gærkvöldi. Reuters

25 ára gamall Haítíbúi, sem bjargað var úr rústum matvöruverslunar í Port-au-Price í gærkvöldi, sagðist hafa lifað 11 sólarhringa vist í rústunum af með því að drekka Coca-Cola.

„Mér líður vel," sagði Wismond Exantus við fréttamann AFP í gærkvöldi. „Ég lifði af með því að drekka Coca-Cola á hverjum degi og ég borðaði líka pínulítið."

Wismond sagðist hafa verið við vinnu sína í Napolitain versluninni þegar hann fann skjálftann. Hann sagðist hafa misst meðvitund en þegar hann rankaði við kallaði hann á samstarfsmann sinn án þess að fá svar.

Hann sagðist hafa verið í litlu holrúmi í rústunum og gat hreyft sig aðeins til vinstri og hægri. Þá barði hann í hluti til að reyna að vekja á sér athygli en gat ekki losað sig. 

„Ég hrópaði ekki, ég bara bað," sagði hann.

Jean-Pierre Jeaneli, bróðir Wismonds, sagðist hafa óttast um bróður sinn en ekki getað komist að rústum verslunarinnar vegna þess að lögregla meinaði honum aðgang. Verslunin var í borgarhverfi þar sem glæpamenn hafa eftir skjálftann farið um og rænt og ruplað.

„Ég hjálpaði öðrum eftir skjálftann. Ég hjálpaði þeim út úr brakinu en ég komst ekki að versluninni vegna þess að lögreglan kom í veg fyrir að fólk færi þangað," sagði hann.  

Franskir slökkviliðsmenn, sem grófu Wismond út úr rústunum, sögðust ekki hafa getað rannsakað umrætt borgarhverfi eins vel og þeir vildu af öryggisástæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert