Ættleiðing varasöm strax í kjölfar hamfara

Barn fær vatn að drekka í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í …
Barn fær vatn að drekka í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Port-au-Prince Carlos Garcia Rawlins

Eins og komið hefur fram í fréttum hafa mörg Evrópulönd nú sett af stað áætlun um að unnt verði að ættleiða með hraði börn á hamfarasvæðunum á Haítí og þrýstingur frá foreldrum sem vilja ættleiða eykst stöðugt. SOS Barnaþorpin, sem starfað hafa á Haítí í 30 ár, segja málið þó flóknara en svo.

„Myndir í kjölfar jarðskjálftans á Haítí sem sýna slösuð og vannærð börn eru til þess fallnar að vekja sterkar tilfinningar," segir í tilkynningu frá SOS á Íslandi. „Viðbrögð margra eru á þann veg að börnin fái endurheimt það sem þau misstu í jarðskjálftanum; öryggi, ást og fjölskyldu. Því er skiljanlegt að margir bendi á þann möguleika að börnin verði ættleidd til annarra landa. Málið er þó flóknara en svo.

Það mun taka vikur og mánuði að skrá þau börn sem orðið hafa viðskila við sína nánustu og sameina fjölskyldur á ný. Það er margra mánaða verk að bera kennsl á þau börn sem misst hafa báða foreldra sína og aðra nána ættingja.

Þessi og fleiri börn eru nú í mikilli þörf fyrir umönnun, skjól, mat, vatn, föt og öryggi. Fjöldi starfsmanna hjálparsamtaka með reynslu á þessu sviði vinnur nú að því að uppfylla þessar þarfir barnanna við mjög erfiðar aðstæður. SOS Barnaþorpin vinna þessa mikilvægu vinnu ásamt öðrum hjálparsamtökum. Börnum er tryggður aðgangur að drykkjarvatni, fatnaði, hjúkrun, hreinlætisaðstöðu og öruggu svæði.

Sérstök áhersla á að börn verði ekki aðskilin

Á næstu vikum og mánuðum munu SOS Barnaþorpin bjóða börnum, sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar, tímabundna aðstöðu. Markmiðið er að hafa uppi á ættingjum barnanna og sé þess nokkur kostur sameina börnin foreldrum sínum, nánum ættingjum eða fjölskylduvinum sem geta séð um börnin. Til að ættingjar eða vinir fái að taka að sér barn þarf að liggja fyrir staðfesting á tengslum þeirra við barnið og eindreginn vilji þeirra og barnsins fyrir slíkri ráðstöfun.

Komi í ljós að barn eigi enga nákomna að og fjarskyldari ættingjar geti ekki eða vilji ekki taka að sér barnið mun allra leiða verða leitað til að finna þá lausn sem hentar barninu best. Sérstök áhersla verður lögð á að systkini verði ekki aðskilin. Ákvörðun um ættleiðingu eða aðra varanlega umönnun barns skyldi aldrei vera tekin strax í kjölfar hamfara líkt og orðið hafa á Haítí.

Hafi barn misst foreldra sína og enginn nákominn því geti eða vilji taka það að sér líta SOS Barnaþorpin svo á að ættleiðing komi til greina. Hinsvegar líta SOS Barnaþorpin svo á að börn ættu að fá að alast upp innan eigin menningar og trúar og eiga kost á að tala móðurmál sitt. Því ætti ættleiðing ekki að koma til nema að því fullreyndu að engin álitleg úrræði í heimabyggð barnsins séu fyrir hendi og farið hafi verið í öllu að lögum landsins og alþjóðlegum ættleiðingarlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert