Búið er að sækja um 150 þúsund lík í rústir húsa í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí, en embættismenn óttast, að um 200 þúsund til viðbótar hafi látist þegar jarðskjálfti reið yfir borgina og nágrenni hennar fyrir tæpum hálfum mánuði.
Verið er að undirbúa alþjóðlegan fund í Montreal í Kanada þar sem fjalla á um uppbyggingu Haítí eftir skjálftann. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til þess, að fleiri hermenn verði sendir til landsins til að aðstoða lögreglu til að koma í veg fyrir uppþot og rán í Port-au-Prince þar sem hundruð þúsunda eru heimilislaus, hungruð og slösuð þrátt fyrir umfangsmikið hjálparstarf að undanförnu.
Á fundinum í Montreal í dag á að ræða hvernig bæta eigi flutninga á matvælum, vatni, lyfjum og öðrum hjálpargögnum til fólks sem hefst við í tjaldbúðum eða úti undir beru lofti í borginni.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Jean-Max Bellerive, forsætisráðherra Haítí, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada og embættismenn frá Sameinuðu þjóðunum munu sitja fundinn.
Hætt hefur verið leit að lifandi fólki í rústum húsa í Port-au-Prince. Franskar hjálparsveitir sögðust þó í gær hafa séð hreyfingu á ratsjá sem notuð er til að fara yfir húsarústir, og kynni það að benda til þess að þar leynist líf. Hafa björgunarmennirnir grafið þar í rústum frá því í gærkvöldi.
Á föstudagskvöld björguðu franskir slökkviliðsmenn 25 ára gömlum manni úr rústum verslunar. Hann sagðist hafa haldið lífi í 11 sólarhringa í rústunum með því að drekka Coca-Cola og borða snakk.
Byrjað er að nota stórvirkar vinnuvélar til að jafna skemmdar byggingar við jörðu. Margir hafa flúið borgina til nærliggjandi bæja.