Spænska veitingahúsinu El Bulli, sem hefur margsinnis verið valið það besta í heimi, verður lokað í tvö ár, frá og með 2012. Þetta segir matreiðslumaðurinn Ferran Adria. Hann segist vera orðinn þreyttur auk þess sem hann finni fyrir þörf til að búa til nýjar uppskriftir.
„Engar máltíðir verða bornar fram í El Bulli árið 2012 og 2013,“ segir matreiðslusnillingurinn.
„El Bulli er hins vegar ekki að loka. Þetta eru ekki tvö ár í hvíld. Ég þarf tíma til að ákveða hvernig árið 2014 á að vera. Við viljum að 2014 verði framúrskarandi og ég veit að þegar ég sný aftur þá mun það verða öðruvísi.“
Í yfirlýsingu, sem er birt á vefsíðu veitingastaðarins, kemur fram að árin 2012 og 2013 verði nýtt til að hugsa, skipuleggja nýjungar næstu ára.
El Bulli, sem er á norðausturströnd Spánar, var valinn besti veitingastaður heims í fyrra, en það var fjórða árið í röð sem staðurinn trónir á topp listans yfir 50 bestu veitingastaðina í heiminum.