Breskir þingmenn munu í dag kalla eftir því að fjármálaeftirlitinu þar í landi verði gefið aukið vald til að fylgjast með fyrirtækjum sem ráðleggja sveitarfélögum, góðgerðasamtökum og fleiri stofnunum um hvernig sé best að ávaxta sparifé sitt.
Umræðan kemur að sögn The Independent í kjölfar Icesave málsins, þar sem m.a. góðgerðasamtök töpuðu milljónum við fall Landsbankans. Fram til þessa hafa samtök og sveitarfélög verið talin til upplýstra neitenda sem ekki þurfi sérstaka vernd í fjármálakerfinu líkt og almennir borgarar.
Í skýrslu sem birt verður í dag á vegum nefndar breskra þingmanna segir hinsvegar að Icesave málið hafi afhjúpað augljósa galla í kerfinu. Í ljósi þess þurfi fjármálaeftirlitið auknar valdheimildir til að fylgjast grannt með þeirri ráðgjöf sem góðgerðarsamtökum og bæjarfélögum er gefin um fjármál sem og faglegt sjálfstæði þeirra fyrirtækja sem bjóða slíka fjárhagslega ráðgjöf.
M.a. vekur nefndin athygli á því að ráðgjafar hafi gjarnan vísað til þess í auglýsingum sínum og bréfum að þeir hefðu heimild og yfirumsjón fjármálaeftirlitsins, til að vekja traust kaupandans.
Raunin sé hinsvegar sú, að sögn Phyllis Starkey formanns nefndarinnar, að ekkert eftirlit hafi verið haft með mörgum þeirra ráðgjafafyrirtækja sem sveitastjórnir og góðgerðasamtök sóttu ráðgjöf hjá. „Sem stendur hefur Fjármálaeftirlitið enga heimild til að grípa inn í aðstæður líkt og þær sem leiddu til þess að almannafé var lagt í áhættu við fall íslensku bankanna," hefur BBC eftir Starkey.
„Ný löggjöf er nauðsynleg til að herða eftirlit með meðferð fjármála í opinbera geiranum."