Noregur stendur hvað best allra Evrópulanda að vígi efnahagslega. Þannig sýnir ný skýrsla, sem ráðgjafafyrirtækið Menon vann fyrir norska iðnaðarráðuneytið, að Noregur skýtur Evrópusambandinu ref fyrir rass þegar kemur að verðmætasköpun, atvinnustigi, baráttunni gegn fátækt og nýsköpun.
Frá þessu greina norsku blöðin Nationen og E24. Að sögn eins rannsakenda að baki skýrslunni, Leo Grünfeld, er það ekki endilega olíuauðurinn sem veldur. „Við skoðuðum líka hvernig þetta lítur út ef við tökum bara meginland Noregs og þar er staða okkar líka sterk," segir hann.
Í skýrslunni er ekki skýrt hvers vegna Noregi gengur svona vel en Grünfeld telur að það hafi sitthvað með samsetningu atvinnulífsins að gera. Formaður samtaka atvinnulífsins í Noregi, Espen Søilen telur þó að Norðmenn myndi skora alveg jafnhátt jafnvel þótt landið væri meðlimur í Evrópusambandinu. Leiðtogi Nei til EU, Heming Olaussen, er hinsvegar ekki sammála því.
Hann segir þessa niðurstöðu afsanna fyrir fullt og allt hræðsluáróðurinn sem hafður var uppi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 1994, um að efnahagurinn myndi falla án ESB. „Þetta sannar það sem við höfum alltaf sagt, en það er fínt að fá það staðfest af hinu opinbera líka."