Stríðsandstæðingar sökuðu Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, um heigulshátt í dag, eftir að fréttir bárust af því að Blair hefði mætt í yfirheyrslur inn um hliðarinngang. Blair mun í dag svara spurningum rannsóknarnefndar varðandi Íraksstríðið.
Margir hafa beðið lengi eftir að fá að heyra Blair svara spurningum varðandi stríðið og fá að vita hvers vegna hann ákvað árið 2003 að senda breska hermenn til Íraks. Fréttamenn segja að hann hafi ekki gengið inn um aðaldyr hússins þar sem yfirheyrslan fer fram.
Bílalest ók að hliðarinngangi byggingarinnar um kl. 07:30 að breskum tíma, eða um tveimur tímum áður en Blair átti að svara spurningum nefndarinnar. Það hefur þó ekki fengist staðfest hvort Blair hafi verið í einni af bifreiðunum.
Mörg hundruð mótmælendur eru nú fyrir framan húsið. Þeir hafa hrópað: „Tony Blair er stríðsglæpamaður“. Lögreglumenn eru á svæðinu og heldur fólkinu innan ákveðins svæðis.
Yfirheyrslan mun standa yfir í sex klukkustundir. Búist er við því að Blair muni flytja kröftuga varnarræðu.