Bandaríkjamaður sem sakaður er um að hafa myrt lækni sem framkvæmdi fóstureyðingar segist hafa gert það til að bjarga lífi ófæddra barna. „Ég gerði það sem ég taldi nauðsynlegt til að vernda börnin," sagði Scott Roeder þegar réttað var yfir honum í Wichita í Kansas í dag.
Roeder hefur lýst sig saklausan af morði en játað að hafa framið manndráp til að koma í veg fyrir meiri skaða. Dómari hefur hinsvegar ítrekað að kviðdómendur skuli íhuga vel alvarleika slíks glæps að yfirlögðu ráði. Hann minnti jafnframt á að fóstureyðingar eru löglegar í Kansas og því ekki hægt að saka fórnarlambið, dr. George Tiller, um manndráp.
Roeder sagði fyrir réttinum í gær að hann hefði lengi íhugað að drepa lækninn með ýmsum hætti, s.s. með því að höggva af honum hendurnar, brjótast inn heima hjá honum og drepa hann eða keyra hann niður á bílnum sínum. „Þessi börn voru í mikilli hættu nema einhver stöðvaði Tiller," sagði hann.